Icelandic(IS)English (United Kingdom)

Staðarleiðsögn á Jarðvangi fer vel af stað

Sameiginlegt námskeið Fræðslunets Suðurlands og Háskólafélags Suðurlands, Staðarleiðsögn á jarðvangi, hófst laugardaginn 26. febrúar sl. í Skógum undir Eyjafjöllum.  Mjög góð aðsókn er að námskeiðinu, 37 þátttakendur, en það er haldið með stuðningi Starfsmenntasjóðs og tengist einnig norrænu samstarfsverkefni sem Háskólafélagið á aðild að, Nordic Geo Guide School, í samvinnu við Magma Geopark á Rogalandi í Noregi, Háskólann í Stavanger og Silurian Islands Geopark á eyjunni Saaremaa í Eistlandi.  

Hannes Stefánsson leiðsögumaður og framhaldsskólakennari hefur umsjón með námskeiðinu í staðarleiðsögninni en markmið þess er að auka hæfni heimamanna til að segja gestum og gangandi frá náttúru, menningu og mannlíf í jarðvanginum (Katla Geopark).  

Laugardaginn 26. mars kynnti Ragnhildur Sveinbjarnardóttir ferðamálafræðingur hugtakið jarðvang, uppruna þess og einkenni.  Lovísa Ásbjörnsdóttir jarðfræðingur greindi frá helstu atriðum í jarðfræði svæðisins en auk þess sýndi Þórður Tómasson þátttakendum fjölskrúðugan safnkost Skógasafnsins, en það er fjölsóttasta safn utan Reykjavíkursvæðisins og varpar einkar skýru ljósi á samband lands og lýðs á svæðinu.

Miðvikudaginn 2. mars var svo fyrsta kvöldlota námskeiðsins af sex en fyrirkomulagið er með þeim hætti að kennarinn er í Glaðheimum á Selfoss þar sem um þriðjungur þátttakenda mætir, en hinir mæta annað hvort á Hvolsvöll, til Víkur eða á Kirkjubæjarklaustur.  Þessir fjórir staðir eru samtengdir um myndfundabúnað Háskólafélagsins þannig að allir þátttakendur sjá samtímis glærur á skjá og heyra í kennaranum, og getur hver þeirra spurt kennarann nánar út í efnið, hvort sem hann er staddur í Glaðheimum eða einhverjum þriggja fjarstaðanna.

Glærurnar og ýmislegt ítarefni verður jafn harðan gert aðgengilegt  hér á heimasíðu jarðvangsins, www.katlageopark.is. 

 

 

Nú í vetur verður haldið námskeiðið Leiðsögn í jarðvangi - Katla Geopark.


Námskeiðið er haldið í samvinnu Háskólafélags Suðurlands og Fræðslunets Suðurlands með styrk frá Starfsmenntasjóði.   Námskeiðið er skipulagt með þeim hætti að það hefst í Skógum undir Eyjafjöllum laugardaginn 26. febrúar og því lýkur á sama stað laugardaginn 16. apríl.  Þess á milli verður kennt sex miðvikudagskvöld kl. 20-22.  Gert er ráð fyrir að kennari kenni í Glaðheimum á Selfossi, en um leið verður fjarkennt á Hvolsvöll, Vík og Kirkjubæjarklaustur.

Í haust var formlega stofnaður jarðvangur (geopark) á Suðurlandi. Jarðvangurinn, Katla Geopark, tekur til sveitarfélaganna þriggja; Skaftárhrepps, Mýrdalshrepps og Rangárþings eystra. Markmið með starfsemi jarðvangsins er m.a. að vernda og nýta jarðminjar svæðisins í þágu sjálfbærrar þróunar og eflingu byggðarinnar. Þróuð verði jarðfræðitengd ferðamennska á svæðinu (Geotourism) sem byggi á fræðslu um jarðminjar, samspil manns og náttúru, og útivist. Markmið námskeiðsins er að stuðla að því að gera heimamenn færa um að taka að sér leiðsögn á jarðvangi.

Þátttakendur verða þjálfaðir í leiðsögutækni og fræddir um jarðfræði og menningu Mið- og Suðausturlands.

Hannes Stefánsson leiðsögumaður og framhaldsskólakennari verður aðalkennari á námskeiðinu en hann hefur m.a. tvívegis haft umsjón með svæðisleiðsögunámi á Suðurlandi.

Verðinu er stillt í hóf, 10.000 krónur, en um er að ræða 36 kennslustunda námskeið.

Nánari upplýsingar er hafa hjá Háskólafélagi Suðurlands (s. 897-2814) og Fræðslunetinu (s. 480-8155).  

Innritun á námskeiðið fer fram í síma 480-8155.