Icelandic(IS)English (United Kingdom)
  • Ráðgjöf
  • Ráðgjöf
  • Ráðgjöf
  • Ráðgjöf


Tveir sérfræðingar European Geoparks Network (EGN) heimsóttu Kötlu jarðvang 6.-8. júlí 2011.  Þetta vou þeir Nickolas Zouros prófessor og yfirmaður landafræðideildar University of the Aegean í Mytilene í Grikklandi og forstöðumaður Lesvos Geopark, og Maurizio Burlando jarðfræðingur og yfirmaður Beigua jarðvangsins á Ítalíu.

Skipulögð var þétt dagskrá fyrir þá félaga um sveitarfélögin þrjú; Rangárþing eystra, Mýrdalshrepp og Skaftárhrepp.  Dagskráin hófst með heimsókn á upplýsingamiðstöðina á Hvolsveli þar sem Þuríður H.  Aradóttir tók á móti gestunum, síðan var haldið í Sögusetrið þar sem snæddur var hádegisverður í boði sveitarstjórnar Rangárþings eystra.  Næsti viðkomustaður var Gestastofan á Þorvaldseyri þar sem Ólafur Eggertsson tók á móti hópnum og sýndi þeim m.a. kvikmyndina um eldgosin 2010 og áhrif þeirra á bæinn.  Næsti viðkomustaður var Skógasafn þar sem þeir Sverrir Magnússon og Þórður Tómasson tóku á móti gestunum.  

Þá var komið við á Ketilstöðum þar sem þau Jóhann Vignir Hróbjartsson og Margrét Birgisdóttir sýndu gestunum nýopnað hótel sitt, Katla Volcano Hotel.  Komið var við í fjörunni hjá Görðum en síðan tekið hús á Þóri Kjartanssyni í Víkurprjóni þar sem hann sýndi þeim framleiðslu sína. Dagurinn endaði svo í grillveislu í hellinum í Þakgili þar sem Elías Guðmundsson og Grétar Einarsson sáu um matseldina.  Gist var á Hótel Höfðabrekku hjá þeim hjónum Jóhannesi og Sólveigu.  Á fimmtudagsmorguninn var haldið austur yfir Mýrdalssand og áð við Dýralækjarkvísl þar sem Ingibjörg Eiríksdóttir tók á móti hópnum en síðan var haldið rakleiðis upp í Laka þar sem Kári Kristjánsson landvörður í Vatnajökulsþjóðgarði tók á móti hópnum.  Um kvöldið var Skaftárstofa og Kirkjubæjarstofa heimsótt, snæddur var kvöldverður á Hótel Geirlandi í boði sveitarstjórnar Skaftárhrepps en gist var í Klausturhofi á Kirkjubæjarklaustri.  Um morguninn var litið við í Sveitabragganum en síðan haldið í Álftaverið þar sem Kristbjörg og Maria á Þykkvabæjarklaustri buðu m.a. upp á volgar ábrystir og heimagerða jógúrt og sögðu frá uppbyggingu ferðaþjónustunnar á staðnum.  Næsti viðkomustaður var í Hjörleifshöfða þar sem Þórir Kjartansson sagði gestum frá sögu staðarins en síðan var haldið á Ströndina í Vík þar sem sveitarstjórn Mýrdalshrepps bauð til málsverðar.  Síðan var gengið niður í fjöru og síðan haldið í Brydebúð þar sem Eggert Sólberg Jónsson forstöðumaður Kötluseturs tók á móti hópnum.  Á leiðinni út úr var komið við í Dyrhólaey þar sem Eiríkur Vilhelm Sigurðsson landvörður tók á móti gestunum og loks farið upp að Sólheimajökli þar sem Elín Einarsdóttir oddviti sagði frá staðháttum.  Lauk þar með hinni formlegu dagskrá með þeim félögum.

Eins og sjá má af ofanskráðu komu fjölmargir aðilar að heimsókninni og eru þeim öllum færðar bestu þakkir fyrir hönd Kötlu jarðvangs.  Sigurður Sigursveinsson framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands ók þeim félögum um svæðið en auk hans fylgdu þeim hluta úr ferðinni þau Ingibjörg Eiríksdóttir, Lovísa Ásbjörnsdóttir, Rögnvaldur Ólafsson, Steingerður Hreinsdóttir og Þuríður H. Aradóttir.

Umsókn Kötlu jarðvangs að European Geoparks Network verður tekin fyrir á ársfundi samtakanna í Noregi um miðjan september en af hálfu jarðvangsins sækja fundinn þau Sigurður Sigursveinsson, Steingerður Hreinsdóttir og Þuríði H. Aradóttir og munu þar kynna jarðvanginn fyrir öðrum fundarmönnum.