Icelandic(IS)English (United Kingdom)

Háskólafélag Suðurlands (www.hfsu.is)

HUGMYNDIN

Bakland Háskólafélags Suðurlands er breið sunnlensk samstaða um eflingu háskólastarfs og fjölbreyttara atvinnulíf á öllu svæðinu. HfSu hyggst beita sér á öllum sviðum háskólastarfsemi.

Háskólafélag Suðurlands var stofnað af öllum sveitarfélögum á Suðurlandi utan Vestmannaeyja og stefnt er að því að afla fleiri hluthafa á svæðinu meðal fyrirtækja og stofnana.

Félagið mun hafa frumkvæði og forystu að auknum menntunarmöguleikum, eflingu þróunarstarfs, nýsköpun og rannsóknum á Suðurlandi.  Með uppbyggingu öflugs upplýsinga- og þekkingarsamfélags hyggst félagið auka búsetugæði, auka fjölbreytni í atvinnulífi og styrkja efnahag á Suðurlandi.  Félagið  mun veita einstaklingum,  stofnunum og fyrirtækjum sérhæfða og  faglega þjónustu á sviði menntunar og rannsókna, miðla upplýsingum  og  veita faglega aðstoð við umsóknir og fjármögnun rannsókna og þróunarverkefna.

FRAMTÍÐARSÝN -TAKMARK

Háskólafélag Suðurlands stefnir að því að vinna sér þann sess í huga vísindamanna, almennings, atvinnulífs og stjórnvalda á næstu 5 árum að vera framúrskarandi net sérhæfðar þekkingarþróunar og rannsóknarstarfsemi á náttúru, lífríki, mannlífi, atvinnu og menningu á Suðurlandi. Háskólafélagið vill efla háskólamenntun, rannsóknir og nýsköpun  á Suðurlandi og ætlar að vera eftirsóknarverður  kostur fyrir Sunnlendinga og aðra  þegar kemur að því að velja  vettvang háskólanáms eða rannsókna- og þróunarstarfa. HfSu stefnir að því að vera með dreifða starfsemi eða net sem nær um allt Suðurland og nýta kosti og möguleika upplýsingatækninnar í því skyni að byggja upp lífvænlegt þekkingarsamfélag á Suðurlandi öllu.

Stefnt er að því að samfara neti viðamikillar háskóla- og rannsóknastarfsemi nýtist aukin þekking til nýsköpunar og fjölbreytni í atvinnulífinu á Suðurlandi.

HLUTVERK

Tilgangur Háskólafélags Suðurlands er að:

 • Mynda þekkingarnet á Suðurlandi  þar sem lögð  er  áhersla á árangur við rannsóknir, menntun og  nýsköpun í  virku  samstarfi fyrirtækja, stofnana og háskóla.  
 • Hækka menntunarstig og auka fjölbreytni í  atvinnutækifærum á  Suðurlandi með öflugri  upplýsingagjöf  og eftirfylgni, virkri náms- og  starfsráðgjöf og góðri aðstöðu til fjarnáms og  staðbundins náms.
 • Fjölga atvinnutækifærum á Suðurlandi sem byggja á vísinda og fræðastarfi.
 • Vera öflugur bakhjarl og hvati við sköpun tækifæra til rannsókna á náttúru, lífríki, menningu, atvinnuvegum og mannlífi á Suðurlandi.
 • Tryggja nemendum í  staðbundnu námi og fjarnámi á  háskólastigi upp  á góða möguleika hvort  sem um er að  ræða grunnnám,  framhaldsnám, símenntun eða  endurmenntun.
 • Vinna með frumkvöðlum og sprota og þekkingafyrirtækum sem vilja styrkja starfsemi sína á Suðurlandi í tengslum við stoðkerfi atvinnulífsins meðal annars með sameiginlegri sókn í sjóði til nýsköpunnar.

Atvinnuþróunarfélag Suðurlands (www.sudur.is)

Þjónusta félagsins

Það er stefna Atvinnuþróunarfélags Suðurlands (AÞS) að leggja áherslu á fagleg vinnubrögð og jöfn gæði þjónustu í sérhverju verki. Viðskiptavinir Atvinnuþróunarfélagsins geta treyst því að þeir fái þá þjónustu sem samið hefur verið um.
 
Hlutverk félagsins er að styðja við verkefni sem leiða til eflingar atvinnulífs á Suðurlandi. Til að rækta hlutverk sitt veitir félagið ráðgjöf til áhugaverðra verkefna. Jafnframt hefur félagið frumkvæði að því, að skilgreina og leita að nýjum atvinnutækifærum. Félagið rækir hlutverk sitt í samstarfi við einstaklinga, fyrirtæki, félagasamtök, önnur innlend atvinnuþróunarfélög, opinbera aðila og erlenda aðila á sviði skipulags- og atvinnumála.
 
Félagið leggur áherslu á vöxt og arðsaman rekstur, traust fyrirkomulag við stjórnun, úrvals starfsmenn sem hafa áhuga, frumkvæði og fá nægjanlega starfshvatningu til að veita viðskiptavinum félagsins og samfélaginu fyrirmyndar þjónustu.
 
Atvinnuþróunarfélag Suðurlands leggur áherslu á, að í öllum samskiptum sínum við viðskiptavini verði gætt fyllsta trúnaðar.
 
Höfuðmarkmið Atvinnuþróunarfélags Suðurlands er að efla atvinnulíf á Suðurlandi og stuðla þannig að aukinni hagsæld á svæðinu með aðstoð við einstaklinga, fyrirtæki, félagasamtök, sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila í formi fjármagns og ráðgjafar.
 
Félagið skal jafnframt hafa frumkvæði og vera leiðandi í að upplýsa, kynna og aðstoða aðila á svæðinu við nýsköpun, nýjungar í rekstri og nýjungar í stjórnun fyrirtækja.
 
AÞS aðstoðar fyrirtæki og einstaklinga í atvinnuskapandi verkefnum á svæðinu. Hvort sem um er að ræða viðbót við núverandi rekstur, stofnun fyrirtækis eða nýsköpunarverkefni.

AÞS er framkvæmdaaðili Vaxtarsamnings Suðurlands auk þess sem það veitir Eignarhaldsfélagi Suðurlands forstöðu.
 
Atvinnuþróunarfélag Suðurlands...

 • Tekur þátt í og er leiðandi við mótun atvinnustefnu á Suðurlandi.
 • Hefur frumkvæði í leit að sóknarfærum í atvinnulífinu.
 • Stendur fyrir sérstökum rannsóknar- og þróunarverkefnum, sem stuðla að þróun atvinnutækifæra.
 • Aðstoðar fyrirtæki, einstaklinga, sveitarfélög, félagasamtök og stofnanir við að kanna nýjungar í atvinnurekstri.
 • Veitir fyrirtækjum og einstaklingum almenna viðskiptaráðgjöf svo sem ráðgjöf varðandi vöruþróun, fjármögnun, markaðssetningu og rekstur.
 • Hefur frumkvæði að samvinnu við aðila í atvinnulífinu og eflir samstarf milli þeirra.
 • Er tengiliður milli tækni- og þjónustustofnana atvinnulífsins og þeirra sem eru í atvinnurekstri eða starfa að atvinnumálum.
 • Miðlar upplýsingum um tækni, rekstur og fjármögnunarmöguleika og aðstoðar við gerð umsókna og lána.
 • Stendur fyrir uppbyggingu fagþekkingar og stjórnunarkunnáttu með námskeiðahaldi og annarri fræðslustarfsemi.
 • Kyndir undir samvinnu milli fyrirtækja á Suðurlandi
 • Veitir upplýsingar til fyrirtækja varðandi markaði og möguleg sóknarfæri
 • Er hlekkur í samskiptakeðju milli fyrirtækja á svæðinu og stofnana í stoðkerfi atvinnulífsins.

AÞS veitir víðtæka þjónustu til fyrirtækja, einstaklinga og sveitarfélaga á starfsvæðinu og er milliliður atvinnulífsins og stofnana í stoðkerfi atvinnulífsins. AÞS tekur þátt í og stendur fyrir verkefnum með það að markmiði að bæta búsetuskilyrði og samkeppnishæfni og auka aðdráttarafl Suðurlands fyrir núverandi og tilvonandi íbúa, ferðamenn og atvinnulíf.

Stofnun fræðasetra Háskóla Íslands (www.hi.is/skolinn/fraedasetur)

Stofnun fræðasetra Háskóla Íslands er rannsókna- og þjónustustofnun sem heyrir undir Hháskólaráð. Stofnunin byggist á fræða- og rannsóknasetrum Háskóla Íslands á landsbyggðinni sem eru faglegar og sjálfstæðar einingar.

Stofnunin er vettvangur samstarfsverkefna Háskólans við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga á landsbyggðinni. Markmið stofnunarinnar er enn fremur að skapa aðstöðu til rannsókna á landsbyggðinni, auka möguleika almennings til menntunar og styrkja tengsl Háskóla Íslands við atvinnu- og þjóðlíf.

Forstöðumaður Stofnunar fræðasetra Háskóla Íslands er Rögnvaldur Ólafsson.

Frá árinu 1998 hefur á vegum rektors Háskóla Íslands verið unnið að því að efla tengsl skólans við landsbyggðina, m.a. með því að fjölga rannsókna- og fræðasetrum Háskóla Íslands um landið.

Markmiðið með þessu kom fram í ræðu Páls Skúlasonar, þáverandi rektors Háskóla Íslands, á Austurlandi árið 1999: „Hlutverk Háskóla Íslands er og hefur alla tíð verið að þjóna allri íslensku þjóðinni. Háskólinn er þjóðskóli sem vinnur jafnt í þágu þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu og hinna sem búa úti á landi. Fræðastörf og þekkingarleit er ekki bara fyrir fámennan hóp fólks. Allt fólk sem vill bæta lífsskilyrði sín, treysta atvinnulíf, viðskipti og menningarlíf, hagnýtir sér í síauknum mæli alls konar fræði.“

Upplýsingar um fræðasetrin er að finna á vef Stofnunar fræðasetra Háskóla Íslands

Rangárþing eystra (www.hvolsvollur.is)

Sveitarfélagið Rangárþing eystra varð til þann 9. júní árið 2002. Þá sameinuðust sex hreppar í austanverðri Rangárvallarsýslu í eitt sveitarfélag; Hvolhreppur, Fljótshlíðarhreppur, Austur Landeyjahreppur, Vestur Landeyjahreppur, Austur Eyjafjallahreppur og Vestur Eyjafjallahreppur.

Rangárþing eystra nær frá Eystri-Rangá í vestri til Jökulsár á Sólheimasandi í austri. Sveitarfélagið er mikið landbúnaðarhérað en jafnframt er ferðaþjónusta vaxandi atvinnugrein og þar er að finna einstakar náttúruperlur og þekkta sögustaði

Ferðaþjónusta í Rangárþingi eystra er í miklum blóma og fyrir gesti svæðisins er margt að sjá og gera. Í sveitarfélaginu eru margar þekktari náttúruperlur eins og t.d. Þórsmörk, Tindfjöll, Eyjafjallajökull, Skógarfoss, Seljalandsfoss og Paradísarhellir en auk þess er að finna einstakar náttúru- og jarðfræðiminjar sem eru minna þekkt eins og Mögugilshelli sem talin er vera stærsti náttúrugerði móbergshellir í norður Evrópu og Drumbabót, þar sem finna má minjar um aldagamlan skóg. Auk þessa minja teygir sögusvið Brennu-Njáls sögu sig um allt svæðið og gestum gefin kostur á að upplifa söguna á lifandi og eftirminnilegan hátt. Afþreying er af ýmsu tagi og hentar öllum aldurshópum, s.s. söfn, sýningar, sundlaugar, hestaleigur, áhugaverðar gönguleiðir, íþróttamiðsstöð, golf, gallerí, veiði og margt fleira. Sex félagsheimili eru í sveitarfélaginu með aðstöðu fyrir ættarmót og aðra viðburði.

Hvolsvöllur er þéttbýliskjarni sveitafélagsins og þar er stjórnsýslan. Helstu atvinnuvegir eru iðnaður, verslun og þjónusta. Byggð hófst á Hvolsvelli er Kaupfélag Hallgeirseyjar hóf þar verslun árið 1930. Á Hvolsvelli er grunnskóli, leikskóli, sýslumannssetur, dýralæknir,heilsugæslustöð, apótek, sundlaug, íþróttahús, verslun, banki, veitingastaðir, ofl.

Íbúar í Rangárþingi eystra eru 1.744 samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands frá 1. desember 2009. Í kauptúninu Hvolsvelli eru 847 íbúar.

Rangárþing eystra

 

 

 

 

Ár

Alls

Karlar

Konur

Hvolsvöllur

2002

1.655

871

784

683

2003

1.699

871

798

694

2004

1.651

854

797

712

2005

1.672

859

813

739

2006

1.694

875

819

763

2007

1.741

902

839

783

2008

1.762

912

850

821

2009

1.744

898

846

847

 

Mýrdalshreppur (www.vik.is)

Texti í vinnslu

Skaftárhreppur (www.klaustur.is)

Skaftárhreppur varð til árið 1990 við sameiningu fimm hreppa, Hörgslands-, Kirkjubæjar-, Leiðvalla-, Skaftártungu- og Álftavershrepps. Hann er austurhluti V-Skaftafellssýslu og afmarkast af Blautukvísl á Mýrdalssandi í vestri og Sandgýgjukvísl á Skeiðarársandi í austri. Hann dregur nafn sitt af ánni Skaftá, sem á aðalupptök sín undir Skaftárjökli og rennur til sjávar í Veiðiósi og Kúðaósi, en lengd hennar frá upptökum til ósa er um 115 km.

Í dag eru íbúar Skaftárhrepps um fimmhundruð og hefur aðeins farið fækkandi síðustu ár. Aðalatvinnuvegur svæðisins er landbúnaður en ferðaþjónusta og fiskeldi eru vaxandi atvinnugreinar. Eini þéttbýliskjarninn í hreppnum er Kirkjubæjarklaustur, eða “Klaustur” eins og það er nefnt í daglegu tali. Á Klaustri er stunduð verslun, marvísleg þjónusta og iðnaður.

Grunnskóli Skaftárhrepps, Kirkjubæjarskóli á Síðu, er á Kirkjubæjarklaustri en þar geta börn stundað nám allan grunnskólann eða út tíunda bekk. Kirkjubæjarskóli var samvinnuverkefni þeirra hreppa sem sameinuðust í Skaftárhrepp og var settur á laggirnar árið 1974. Leikskólinn Kæribær er á Klaustri en þar læra yngstu börnin að taka sín fyrstu skref út í lífið. Á Klaustri er líka hjúkrunar- og dvalarheimilið Klausturhólar.

Skógasafn (www.skogasafn.is)

Byggðasafnið í Skógum á sér nú rúmlega hálfrar aldar sögu, en það var formlega stofnað árið 1949. Á þeim tíma var safnið í kjallaraherbergi í Héraðskólanum í Skógum. Það var opnað til sýningar 1. desember sama ár. Frumkvöðull að stofnun safnsins er safnstjórinn Þórður Tómasson og hefur hann átt veg og vanda af velferð safnsins allt frá upphafi til dagsins í dag.

Safnið er í eigu Héraðsnefnda Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. Fyrstu árin var komið upp sýningum á munum safnsins í kennslustofum Héraðsskólans á sumrin í samvinnu við sumarhótelið í Skógum. Fljótlega varð þó ljóst að safninu var ekki sniðinn stakkur eftir vexti því það óx ört. Barnið óx en brókin ekki.

Árið 1952 fékk safnið að gjöf áttæringinn Pétursey frá Jón Halldórssyni kaupmanni í Suður-Vík. Varð þá brýnt að koma safninu í eigið húsnæði. Því fór svo að árið 1955 var reist myndarlegt safnhús sem rúmaði Pétursey og gott betur. Þar var ekki látið staðar numið þar sem Þórður Tómason hélt ótrauður áfram að viða að sér fleiri munum og fljótlega fór enn að þrengja að.
Með byggingu safnhússins hófst uppbygging á gömlum bæjarhúsum á safnsvæðinu. Árið 1968 var fyrsta húsið flutt að Skógum og endurreist þar. Var það skemma frá Varmahlíð undir Eyjafjöllum sem langafi Þórðar byggði á bæ sínum um 1840.

Fljótlega komu svo skarsúðarbaðstofa, hlóðaeldhús, stofa og búr. Þessi voru þó aðeins fyrstu húsin af mörgum og enn er að bætast við. Nú síðast kirkja og skólahús. Allt voru þetta hús sem voru flutt úr Rangárþingi og Vestur- Skaftafellssýslu og endurbyggð í Skógum.

Árið 1990 var svo ákveðið að reisa viðbyggingu við safnhúsið svo að safnið fengi notið sín sem skyldi. Áraskipið Pétursey var flutt í húsið og stendur þar með rá og reiða. Með tilkomu þessa húss jókst rými verulega og varð þá fyrst gerlegt að skipta safninu niður í deildir, það er sjósóknardeild, landbúnaðardeild og svo framvegis. Einnig var stofnað skjalasafn fyrir Rangárvalla- sýslu og Vestur-Skaftafellssýslu í kjallara nýja hússins.

Árið 2002, þann 20. júlí, var opnað samgöngusafn í miklu sýningarhúsi sem reist var á safnsvæðinu. Þetta er safn samgöngu- og tækniminja, auk sýningardeildar um þátt hestsins í ferðum og flutningum og um ferjuflutninga. Markús Jónsson, söðlasmiður í Borgareyrum (d. 1888), á sérstakt sýningarrými. Veitingasala og verslun er hér innan veggja.

Safnið hefur tekið að sér rekstur skólabygginga í Skógum eftir að framhaldsskólinn var lagður niður. Hefur Sverrir Magnússon, fyrrverandi skólastjóri Skógaskóla um mörg ár, tekið við sem framkvæmdastjóri safnsins.

Kötlusetur

Föstudaginn 19. nóvember 2010 var haldinn stofnfundur sjálfseignarstofnunarinnar Kötluseturs í Brydebúð í Vík í Mýrdal.  Skv. skipulagsskrá er tilgangur Kötluseturs að byggja upp og reka atvinnustarfsemi á sviði náttúruvísinda, land- og ferðamálafræða og menningarmála í Vík.  Þá er markmið félagsins að vinna að rannsóknum á ofangreindum sviðum og gera afraksturinn sýnilegan almenningi.  Stofnaðilar Kötluseturs eru þrír; Menningarfélag um Brydebúð, Mýrdalshreppur og Háskólafélag Suðurlands.  Menningarfélagið leggur húseigninga Brydebúð (brydebud.vik.is)  til setursins og Mýrdalshreppur leggur til húseignirnar Skaftfellingsbúð og Halldórsbúð.   Vélskipið Skaftfellingur, sem Sigrún Jónsdóttir listamaður flutti frá Vestmannaeyjum árið 2001, er til húsa í Skaftfellingsbúð og er nú unnið að endurbótum á húsnæðinu á vegum Mýrdalshrepps.  

Fimm manna stjórn hefur verið tilnefnd af stofnaðilum til að stýra Kötlusetri, en það eru Ásgeir Magnússon og Elísabet Ásta Magnúsdóttir tilnefnd af Mýrdalshreppi, Þórir Kjartansson og Æsa Gísladóttir tilnefnd af Menningarfélagi um Brydebúð, og Sigurður Sigursveinsson tilnefndur af Háskólafélagi Suðurlands.

Kirkjubæjarstofa (www.kbkl.is)

Kirkubæjarstofa var stofnuð sem rannsókna- og menningarsetur á Kirkjubæjarklaustri að frumkvæði dugmikilla heimamanna með dyggum stuðningi nokkurra áhugasamra vísindamanna, sem hafa stundað hluta af rannóknum sínum á vettvangi í héraðinu. Telja þessir frumkvöðlar að náttúra og saga héraðsins sé um margt svo sérstæð að full ástæða sé til að hafa í aðstöðu til að tengja störf vísindafólks á vettvangi héraðinu enn sterkari böndum og skapa um leið betri aðstöðu til að kynna hina sérstæðu náttúru og sögu fyrir gestum héraðsins.

Starfsemi Kirkjubæjarstofu hófst 1.júli 1997, þá hafði verkefnisstjórn unnið að undirbúningi starfseminnar frá 1. mars 1997. Stofnuð hefur verið sjálfseignarstofnunin Kirkjubæjarstofa, sem hefur komið upp húsnæði og aðstöðu fyrir starfsemi stofunnar á Kirkjubæjarklaustri. Einnig hefur verið tilnefnd ráðgjafanefnd fyrir starfsemina og í þeirri ráðgjafanefnd eiga eftirtaldar stofnanir fulltrúa:

Háskóli Íslands og ýmsar stofnanir hans, Landgræðsla ríkisins, Náttúrufræðistofnun Ísland, Náttúrustofa Suðurlands, Náttúruvernd ríkisins, Orkustofnun, Norræna Eldfjallastöðin, Landsvirkjun, Byggðastofnun, Umhverfisráðuneytið, Verðurstofa Íslands,Ferðamálaráð, Þjóðminjasafn Íslands.

Markmið starfseminnar er að efla og styðja rannsóknir og lifandi fræðslu um náttúrufar, sögu og menningu héraðsins. Lögð verður áhersla á starfsemin sé í fullu samræmi bæði við áherslur í stefnumörkun sveitarfélagsins og kröfur og aðstæður í nútíma upplýsingar– og þekkingarþjófélagi. Kirkjubæjarstofa hyggst einnig með starfsemi sinni stuðla að auknu streymi ferðafólks í héraðið og lengingu á viðverutíma þess með nýju og endurbættu sýningarefni.

Markmiðum þessum hyggst Kirkjubæjarstofa ná á eftirfarandi hátt :

 1. Söfnun, flokkun og skráning gagna um náttúru, menningu og sögu héraðsins.
 2. Öflun nýrrar þekkingar með þvi að stuðla að frekari rannsóknum í samstarfi við innlendar og erlendar vísindastofnanir.
 3. Að standa fyrir ráðstefnum og fræðslufundum um náttúru, menningu og sögu og héraðsins.
 4. Kynningar- og fræðslustarfsemi og rekstur sýningarsalar.
 5. Efling ferðaþjónustu með samvinnu við ferðamálafélag Skaftárhrepps.